Um Háskólalestina

Um Háskólalestina

Megináhersla Háskólalestarinnar er að kynna vísindi á lifandi og fjölbreyttan hátt fyrir ungu fólki, styðja við starf grunnskóla og efla tengsl HÍ við landsbyggðina. Í áhöfn lestarinnar eru margreyndir kennarar og nemendur við Háskóla Íslands, sem margir hverjir starfa einnig sem leiðbeinendur í Vísindasmiðju HÍ og Háskóla unga fólksins sem hafa notið gríðarlegra vinsælda eins og lestin sjálf.  Áhöfn Háskólalestarinnar hefur líka Opið hús í litríkum anda á hverjum stað auk þess að bjóða upp á kennarasmiðjur. 

Háskólalestin hefur heimsótt um fjórða tug áfangastaða um allt land við miklar vinsældir. Það er því mikið tilhlökkunarefni að hefja ferðina ár hvert en starf lestarinnar er skipulagt í samstarfi við sveitarfélög og grunnskóla hvers áfangastaðar.

Háskólalestin hefur hlotið Vísindamiðlunarverðlaun Rannís eins og Vísindasmiðjan og Háskóli unga fólksins.

Image

Vísindastuð á opnu húsi

Opið hús Háskólalestarinnar er eins og ætla má – öllum opið. Þar gefst gestum og gangandi færi á að spjalla við fræðafólkið og kynnast undrum vísindanna með gagnvirkum og lifandi hætti. 

Í Opna húsinu er lögð áhersla á fjölbreytni og fjör með fræðilegum grunni – vísindin eru í háskerpu. 

Opna húsið hefur alltaf verið afar vel sótt og vakið mikla athygli. Fjölskyldur hafa notið dvalið þar, fullar áhuga og öll hafa fundið eitthvað við sitt hæfi.

 

Image