Fjör og fræði í Háskólalestinni 2024

Háskólalestin landsþekkta brunar á tvo staði þetta vorið. Hún verður á Höfn í Hornafirði 3. maí og á Húsavík 22. maí. Í lestinni er fléttað saman dúndrandi fræðum og vísindafjöri.

Á báðum stöðum verður Háskólalest HÍ með kennslu í grunnskólanum og kynningu á undrum vísindanna fyrir grunnskólakrakka og heimafólk.

Áhöfn lestarinnar býður upp á mjög fjölbreytt og spennandi námskeið og smiðjur af öllum fræðasviðum fyrir grunnskólanemendur og líka fyrir kennara. Í áhöfn lestarinnar er fræðafólk og framhaldsnemar við Háskóla Íslands sem öll hafa mikla reynslu af miðlun og kennslu. Einnig verður vísindafólk frá Rannsóknasetrum HÍ í lestinni.

Markmiðið með Háskólalestinni er að kynna kynna vísindi á lifandi hátt og styðja við starf grunnskólanna samtímis því að efla tengsl HÍ við landsbyggðina.

Háskólalestin fékk Vísindamiðlunarverðlaun Rannís árið 2012.

Image

Undur vísindanna í opnu húsi

Háskólalestin býður öllum á opið hús á Höfn og Húsavík til að sjá afrakstur krakkanna úr lestinni fyrr um daginn auk þessa að gefa fólki færi á að kynnast vísindafólkinu betur og sjá undrin með eigin augum. 

Á opna húsinu er hægt að spjalla við fræðafólkið um allt milli himins og jarðar, eða því sem næst.

Það er alveg ókeypis á opna húsið og öll eru hjartanlega velkomin!

Image