Næst stöðvast Háskólalestin á Húsavík miðvikudaginn 22. maí. Haldin verða fjölbreytt og spennandi námskeið úr Háskóla unga fólksins fyrir nemendur í Borgarhólsskóla á Húsavík en dagskránni lýkur síðdegis með opnu vísindahúsi fyrir allt samfélagið á sama stað.
Opna vísindahúsið verður í sal Borgarhólsskóla miðvikudaginn 22. maí kl. 16:00 – 17:00. Þar býðst öllum að spjalla við fræðafólkið og kynnast undrum vísindanna með gagnvirkum og lifandi hætti. Verið hjartanlega velkomin – það er alveg ókeypis – ekkert að bóka – bara að mæta!
Sama dag sitja nemendur í 7.-10.bekk í Borgarhólsskóla námskeið í Háskólalestinni þar sem meðal annars er boðið upp á tækjaforritun, íþrótta- og heilsufræði, stjörnufræði, blaða- og fréttamennsku, hvali í sýndarveruleika, fablab, sjúkraþjálfun, plöntur og tónlist, efnafræði, og það sem öll eru að tala um þessa dagana, gervigreind.
Image