Það var sannkölluð hátíðarstemning þegar bæjarbúar og nærsveitungar fylltu Félagsheimilið Miklagarð og Háskólalestin opnaði dyr sínar að Opnu Vísindahúsi á Vopnafirði. Ungir sem aldnir tóku þátt í skemmtilegu og fræðandi ferðalagi um heim vísinda og fræða og gleðin skein úr hverju andliti og forvitnin var í hávegum höfð.
Gestir fengu að spreyta sig á fjölbreyttum stöðvum þar sem leyndardómar vísindanna voru dregnir fram í dagsljósið. Þrautabraut sjúkraþjálfara vakti mikla lukku,en þar fengu gestir bæði fróðleik um líkamann og tækifæri til að prófa eigin getu og líkamsbeitingu. Á fréttastofunni gátu gestir sest í stól fréttamannsins, tekið viðtöl fyrir framan myndavél og einnig prófað sig áfram í kvikmyndatöku.
Sprengju-Kata heillaði með töfrum efnafræðinnar, spennandi tilraunum og sinni líflegu framgöngu. Forvitnir gestir fengu innsýn í heim gervigreindar og hvernig þessi ótrúlega tækni virkar á allskonar máta.
Margir köfuðu ofan í dulkóðun og lærðu leyniskrift, og það vakti sérstaka lukku að fá nafnið sitt skrifað í japönskum mynd táknum og fá fræðslu um japanska menningu. Fjölmargir hönnuðu sínar eigin pappírseldflaugar og skutu þeim upp og margar þeirra náðu ótrúlegum hæðum.
Það var virkilega gaman að heimsækja Vopnafjörð og kynnast einstaklega hlýju og áhugasömu samfélagi. Áhöfn Háskólalestarinnar sendir sínar innilegustu þakkir til allra sem mættu. Kurteisir, forvitnir, hjálpsamir og skemmtilegir gestir gerðu upplifunina ógleymanlega.
Við kveðjum Vopnafjörð með hlýju í hjarta og þökkum kærlega fyrir okkur.
Skoðið myndir frá ferð Háskólalestarinnar á Vopnafjörð! Í myndaalbúminu má sjá ljósmyndir frá kennarasmiðjum, kennslu fyrir 5.–10. bekk Vopnafjarðarskóla, Öxarfjarðarskóla og grunnskólans á Þórshöfn, sem og frá Opnu Vísindahúsi fyrir allt samfélagið í Félagsheimilinu Miklagarði.
