Dagana 29. - 31. ágúst hafði Háskólalestin viðkomu í Sandgerði við góðan orðstír. Nemendur í 6., 7., 9. og 10. bekk Sandgerðisskóla tóku þátt í fjölbreyttum og spennandi námskeiðum, þar sem þeir fengu tækifæri til að kafa ofan í ólíkar fræðigreinar og ýmiss konar tækni og vísindi. Nemendurnir sátu námskeið í skurðlækningum, blaða- og fréttamennsku, efnafræði, japönskum fræðum, gervigreind, íþrótta- og heilsufræði, tækjaforritun, stjörnufræði og sjúkraþjálfun.
Laugardaginn 31. ágúst var haldið glæsilegt opið vísindahús í sal Sandgerðisskóla þar sem ungir sem aldnir kynntust fjölbreyttum fræðum og vísindum á lifandi, skemmtilegan og gagnvirkan hátt. Opna vísindahúsið var haldið í samstarfi við bæjarhátíðina Vitadagar - hátíð milli vita og Sandgerðisskóla. Gestir gátu m.a. keppt í blöðrukeppni með forrituðum fígúrum, prufað sig áfram með gervigreind, horft á spennandi efnafræðitilraunir, saumað í gervihúð, tekið þátt í fréttaviðtölum, fræðst um himingeiminn, prufað tól og tæki sjúkraþjálfara, skrifað japönsk tákn og reynt á stökkkraft sinn.
Auk þessa alls sátu áhugasamir kennarar kennarasmiðjur í gervigreind og tækjaforritun með vísindamönnum Háskólans þann 29. ágúst.
Áhöfn Háskólalestarinnar vill þakka íbúum Sandgerðis og nærsveita fyrir frábærar viðtökur, nemendum og starfsfólki Sandgerðisskóla fyrir frábært samstarf, virka þátttöku og skemmtilega samveru.
Skoðið myndir Kristins ljósmyndara HÍ frá ferð Háskólalestarinnar í Sandgerði. Hér má sjá myndir sem ljósmyndari á vegum Sandgerðisskóla tók.