Háskólalestin á Vopnafirði - Vísindi fyrir allt samfélagið 

Háskólalest Háskóla Íslands heimsækir Vopnafjörð dagana 6.–8. maí og býður unga fólkinu, kennurum og íbúum svæðinu upp á sannkallað vísindaævintýri.  

Í áhöfn Háskólalestarinnar eru kennarar og nemendur úr fjölbreyttum greinum innan Háskóla Íslands. Miðvikudaginn 7. maí verða þau með fjölbreytt námskeið fyrir nemendur í 5.–10. bekk í Vopnafjarðarskóla þar sem nemendur frá Þórshöfn og Öxarfirði taka einnig þátt. Meðal námskeiða í boði eru blaða- og fréttamennska, efnafræði, gervigreind, japönsk fræði, sjúkraþjálfun, dulkóðun og rafstuð. Daginn áður, 6. maí, býðst kennurum grunnskólana jafnframt að sækja sérstakar smiðjur um gervigreind og náttúruvísindakennslu á vegum kennara í Háskólalestinni. 

Fimmtudaginn 8. maí verður svo Opið vísindahús í Félagsheimilinu Miðgarði kl. 15–17. Þar geta gestir á öllum aldri tekið þátt í lifandi og skemmtilegum tilraunum og spreytt sig á spennandi verkefnum: Tekið fréttaviðtöl, prófað tól og tæki sjúkraþjálfara, skrifað japönsk tákn, uppgötvað undur gervigreindar, kynnst undrum efnafræðinnar hjá Sprengju-Kötu, kafað ofan í dulmál og dulkóðun og jafnvel kannað hvort það sé hægt að búa til rafhlöðu úr kartöflu! Öll eru hjartanlega velkomin – aðgangur er ókeypis og engin skráning nauðsynleg. 

Vopnafjörður er fyrsti áfangastaður lestarinnar í ár en hún heimsækir einnig Patreksfjörð í maí og Suðurland í haust. Frá árinu 2011 hefur lestin ferðast vítt og breitt um landið og miðlað vísindum með líflegum og fjölbreyttum hætti og um leið lagt áherslu á að styrkja starf grunnskólanna og efla tengsl Háskóla Íslands við samfélög um allt land.  

Háskólestin hefur heimsótt hátt á fjórða tug áfangastaða og fengið einstaklega hlýjar móttökur hvert sem komið er. Þá hefur lestin hlotið Vísindamiðlunarverðlaun Rannís.  

Hægt verður að fylgjast með lestinni á vef hennar og á Facebook-síðu lestarinnar. 

 

 

Image