Áhugasamir og skemmtilegir nemendur í 5.–10. bekk Patreksskóla, Tálknafjarðarskóla og Bíldudalsskóla tóku þátt í fjölbreyttum og lifandi námskeiðum Háskólalestarinnar í Patreksskóla. 
Á dagskrá voru spennandi námskeið í stjörnufræði, efnafræði, kóröllum Íslands, rafstuði, blaða- og fréttamennsku, sjúkraþjálfun og gervigreind. Nemendur fengu tækifæri til að takast á við fjölbreytt verkefni, prófa tæki og tól og kynnast vísindum á lifandi og gagnvirkan hátt.

Dagurinn hófst á fræðandi og heillandi erindi frá Sævari Helga um undur og uppgötvanir himingeimsins. Að því loknu tók SprengjuKata við með líflega efnafræðitilraun sem vakti mikla lukku og gleði meðal nemenda og kennara.

Þátttakan var virkilega góð og stemningin eftir því. Áhafnarmeðlimir Háskólalestarinnar þakka kærlega fyrir hlýjar móttökur og frábæran dag með forvitnum og fróðleiksfúsum nemendum og kennurum. 

Skoðið myndir frá ferð Háskólalestarinnar í Vesturbyggð

Vísindaævintýrið heldur áfram því fimmtudaginn 15. maí kl. 16–18 verður Opið Vísindahús í Félagsheimilinu á Patreksfirði.  Öll til sjávar og sveita, á öllum aldri, eru hjartanlega velkomin!

Gestir fá að kynnast vísindum á gagnvirkan, lifandi og skemmtilegan hátt. Á dagskrá má meðal annars finna:

  • Tilraunir með eldflaugar
  • Himingeimurinn með Sævari Helga
  • Spennandi efnafræðitilraunir SprengjuKötu
  • Gervigreind á ýmsa vegu
  • Gestir taka fréttaviðtöl og prufa tökuvélina
  • Kórallar á Íslandi 
  • Þrautabraut og líkaminn með sjúkraþjálfara

Aðgangur er ókeypis – Öll velkomin. 

Image