Þá erum við farin að hlakka til vorsins og allt stefnir í að Háskólalestin getið loks brunað af stað án takmarkana. Lestin mun heimsækja fjóra áfangastaði á landsbyggðinni í maí með þar sem frábær hópur kennara verður með fjölbreytt námskeið og smiðjur í farteskinu bæði fyrir nemendur og kennara. 

Þetta vor verða áfangastaðir lestarinnar fjórir:
- Hvolsvöllur (5.-6.maí)
- Grindavík (12.- 14.maí)
- Dalvík (19.-21.maí) 
- Ólafsvík (26.-28.maí).

Háskólalestin hefur verið starfrækt frá aldarafmælisári Háskóla Íslands árið 2011 og megináherslan í starfi hennar er á að kynna vísindi á lifandi og fjölbreyttan hátt fyrir ungu fólki, styðja við starf grunnskólanna og efla tengsl við landsmenn á öllum aldri. Í áhöfn Háskólalestarinnar eru kennarar og nemendur við Háskóla Íslands, sem felstir hverjir eru líka leiðbeinendur í Vísindasmiðju HÍ og Háskóla unga fólksins. 

Háskólestin, sem hlotið hefur Vísindamiðlunarverðlaun Rannís, hefur heimsótt hátt á fjórða tug áfangastaða um allt land frá upphafi og fengið einstaklega hlýjar móttökur hvert sem komið er. Það er því alltaf mikið tilhlökkunarefni að hefja ferðina ár hvert en allt starf lestarinnar er skipulagt í nánu samstarfi við sveitarfélög og skóla hvers áfangastaðar. 

Lestin hefur ekki farið varhluta af heimsfaraldrinum mikla. Vorið 2020 var hún alfarið kyrrsett og vorið 2021 mótaðist skipulag hennar að stórum hluta af faraldrinum. Loksins stefnir í óhindraða ferð í vor og sem fyrr verður  ekkert slegið af metnaðarfullum og einkar áhugaverðum námskeiðum sem í boði verða á hverjum áfangastað.

Sú nýjung verður áfram í Háskólalestinni að sérstakar kennarasmiðjur verða í boði auk námskeiðanna fyrir unga fólkið. Vísindasmiðja Háskóla Íslands hefur undanfarin ár boðið kennurum í fjölbreyttar smiðjur með áherslu á verklega fræðslu og tilraunir. Mikil eftirspurn hefur verið eftir endurmenntun af þessu tagi og nú verða valdar smiðjur í boði fyrir kennara á landsbyggðinni líkt og síðasta vor.

Image