Opið Vísindahús í Félagsheimilinu á Patreksfirði tók vísindaævintýrið í Vesturbyggð á nýtt flug. Gestir á öllum aldri streymdu að og tóku þátt í fjölbreyttri dagskrá sem spannaði allt frá sprengitilraunum og stjörnufræði til gervigreindar og fréttaviðtala.
Á staðnum gerðu gestir tilraunir með eldflaugar, fylgdust með eldfimum efnafræðitilraunum hjá SprengjuKötu, og veltu fyrir sér stórum spurningum alheimsins með Sævari Helga. Gervigreindin var prófuð á ýmsa vegu, og margir gátu prófað sig áfram sem fréttamenn fyrir framan myndavél, eða sett sig í stellingar kvikmyndagerðarfólks.
Kórallar á Íslandi? Já, það var einnig til umræðu. Gestir skelltu sér í þrautabraut og pældu í líkamanum með sjúkraþjálfara.
Stemningin var frábær, forvitnin í fyrirrúmi og gleðin allsráðandi. Þetta var sannkölluð veisla fyrir skynfærin og hugann og fannst gestum vísindin bæði skemmtileg og spennandi.
Við þökkum íbúum í Vesturbyggð kærlega fyrir frábærar móttökur.
Skoðið myndir frá vísindaævintýri Háskólalestarinnar í Vesturbyggð!
Í albúminu má sjá stemningsmyndir frá kennarasmiðjum, námskeiðum fyrir 5.–10. bekk í Patreksskóla þar sem nemendur úr Tálknafjarðarskóla og Bíldudalsskóla tóku þátt, og að sjálfsögðu frá líflegu Opnu Vísindahúsi fyrir allt samfélagið í Félagsheimilinu á Patreksfirði.
