Vísindaveisla

Áhöfn Háskólalestarinnar slær upp Vísindaveislu á hverjum áfangastað. Vísindaveislan er opin öllum og góð skemmtun fyrir alla fjölskylduna - börn og fullorðna.

Vísindaveislan er fjölbreytt og lifandi, þar sem áhersla er lögð á fjör og fræði, skemmtun og fræðslugildi. Gestum hefur til dæmis staðið til boða að sjá sýningar Sprengjugengisins, fylgjast með mælingum og pælingum eðlisfræðinga og kynnast margvíslegum undrum jarðar hjá jarðfræðingunum. 

Þá hafa gestir prófað líkamlegt þrek sitt á sérstöku hjóli, kafað ofan í búr eftir grjótkröbbum og kynjaskepnum sjávarins, fengið gefins teikningar úr róló pendúl eða nafn sitt skrifað á japönsku. Einnig hefur staðið til boða að upplifa eldorgel og að leggjast inn í hið sívinsæla stjörnutjald og ferðast um himingeiminn í máli og myndum. 

Fyrirtækjum, þekkingar- og rannsóknarsetrum, og náttúruvísindasöfnum á þeim stöðum sem Háskólalestin heimsækir er ávallt boðið að taka þátt í vísindaveislunni og kynna sína starfsemi.Þannig fær unga fólkið hugmyndir um þau tækifæri sem menntun veitir, og hvernig hægt er að nýta sér hana í framtíðinni.

Vísindaveislur Háskólalestarinnar hafa verið afar vel sóttar og vakið umtalsverða athygli. Ungir sem aldnir hafa dvalið tímunum saman á staðnum, fullir áhuga og allir hafa fundið eitthvað við sitt hæfi.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is