Stykkishólmur

Fyrsti áfangastaður Háskólalestarinnar var Stykkishólmur, en þar var lestin 29. - 30. apríl 2011. Vísir fjallaði um þessa fyrstu ferð Háskólalestarinnar, enda spennandi verkefni að fara af stað.

Nemendum 5. - 10. bekkjar grunnskólans bauðst að sækja valin námskeið úr Háskóla unga fólksins á fyrri deginum. Fjölbreytt námskeið voru í boði: japanska, stjörnufræði, eðlisfræði, nýsköpun, íþrótta- og heilsufræði, og jarðfræði.

Að morgni laugardagsins 30. apríl var farið í fuglaskoðun undir leiðsögn sérfræðinga Náttúrustofu Vesturlands og Rannsóknarseturs HÍ á Snæfellsnesi. Síðar um daginn var svo efnt til vísindaveislu á Vísindavöku W23 á Hótel Stykkishólmi. Fjölbreytt dagskrá samanstóð meðal annars af sýningum félaga úr Sprengjugenginu landsfræga, eldorgeli, stjörnutjaldi, leikjum, japanskri menningu, Vísindavef HÍ og undrum jarðar, hafs og himins. Nátttúrurannsóknir á Snæfellsnesi voru kynntar, rannsóknarkafbáturinn Gavia var til sýnis og háfur var krufinn. Þá gátu gestir kynnt sér radíósenditækni í minkum og skoðað krabba, fugla, fiska og spendýr. 

Í stuttum fræðsluerindum kynntust gestir meðal annars bernskubrekum æðarblika, botndýrum við Íslandsstrendur, eðli minksins og ferðum geimfara um himingeiminn. 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is