Snæfellsnes

Síðasti viðkomustaður Háskólalestarinnar þetta árið var Snæfellsnes, en lestin kom við bæði í Grundarfirði og í Ólafsvík. Föstudaginn 29. ágúst sóttu nemendur í efstu bekkjum grunnskóla Ólafsvíkur, Hellissand, Rifs og Grundafjarðar námskeið Háskóla unga fólksins í eðlisfræði, japönsku, stjörnufræði, blaða- og fréttamennsku, næringarfræði, hugmyndasögu, Legó forritun, jarðfræði og vísindaheimspeki. 

Kennslan fór fram í Ólafsvík, en daginn eftir var vísindaveislu slegið upp í Fjölbrautarskóla Snæfellinga í Grundarfirði. 

Háskólalestin var nú orðin að fyrirmynd fyrir þekkingarlestir á öðrum Norðurlöndum sem hluti af formennskuáætlun Íslands í norrænu ráðherranefndinni. Af því tilefni slógust góðir gestir með í för,  fulltrúar norrænna mennta- og vísindastofnana. Þáttur í undirbúningi þeirra fyrir að koma upp eigin lestum var að fylgjast með áhöfnninni að verki á Snæfellsnesi til að kynnast verkefninu betur. Hluti ferðarinnar var einnig kvikmyndaður fyrir heimildarmynd og því var nóg um að vera. Háskólalestin vakti heldur betur lukku á Snæfellsnesi, eins og Skessuhorn fjallaði um.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is