Háskólalestin leggur af stað á ný

Háskólalest Háskóla Íslands er nú að leggja af stað í sína árlegu ferð og er þetta fjórða vorið sem lestin brunar um landið með fjölbreytta dagskrá fyrir alla aldurshópa. Fyrsti áfangastaðurinn er að þessu sinni er Laugarvatn dagana 8. og 10. maí. Í ferðum lestarinnar er lögð er áhersla á lifandi og skemmtilega vísindamiðlun til ungs fólks og litríka dagskrá fyrir alla fjölskylduna.

Áfangastaðir Háskólalestarinnar í maímánuði eru Laugarvatn, Vestmannaeyjar, Hólmavík og Dalvík og nemur lestin staðar í tvo daga á hverjum stað. Fyrri daginn er boðið upp á valin námskeið í Háskóla unga fólksins fyrir nemendur í eldri bekkjum grunnskóla og þann seinni er blásið til vísindaveislu fyrir alla fjölskylduna í samstarfi við heimamenn.

Sprengjugengið, Stjörnutjald og magnaðar tilraunir
Fyrsti áfangastaður Háskólalestarinnar er Laugarvatn. Fimmtudaginn 8. maí sækja nemendur eldri deilda Bláskógaskóla námskeið í Háskóla unga fólksins í efnafræði, íþróttanæringarfræði, blaða- og fréttamennsku, jarðvísindum, stjörnufræði og japönsku.

Laugardaginn 10. maí verður svo slegið upp veglegri vísindaveislu í Íþróttahúsinu á Laugarvatni kl. 13 til 17. Þar verða meðal annars magnaðar sýnitilraunir, japanskir búningar og skrautskrift, leikir og þrautir, ýmis tæki og tól, furðuspeglar, mælingar og alls kyns óvæntar uppgötvanir. Sérfræðingar frá Landgræðslu Íslands bjóða gestum í skoðunarferð þar sem jarðsagan verður lesin úr rofabörðum í nágrenninu og heilmargt annað verður í boði fyrir heimamenn.

Sprengjugengið landsfræga er með í för og sýnir kl. 13.30 og 15.30 og sýningar verða í hinu sívinsæla stjörnutjaldi á 30 mínútna fresti. Stjörnutjaldið verður staðsett í anddyri Íþróttafræðasetursins en Sprengjugengið sýnir í Íþróttahúsinu.

Dagskrá Háskólalestarinnar er öllum opin, aðgangur ókeypis  og allir hjartanlega velkomnir.

Áætlun Háskólalestarinnar í maí 2013:
8. og 10. maí - Laugarvatn

16. og 17. maí - Vestmannaeyjar

23. og 24. maí - Hólmavík

30. og 31. maí - Dalvík

Lestin heldur áfram í ágúst og þá er stefnt á Grundarfjörð og Vopnafjörð.

Hægt er að fylgjast með Háskólalestinni á vef hennar og á Facebook.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is