Frábærar ferðir Háskólalestar í maí

Háskólalestin hefur nú farið í síðustu ferð vorsins, en að baki eru frábærar ferðir í Búðardal, á Blönduós, í Stykkishólm og á Voga. Þetta hafa verið stórskemmtilegar ferðir fyrir áhöfn Háskólalestarinnar. Á hverjum stað hafa fróðleiksfúsir nemendur tekið á móti okkur í grunnskólunum og haldið kennurum Háskóla unga fólksins á tánum með frumlegum og krefjandi spurningum um vísindin.

Við höfum einnig haldið vísindaveislur í samstarfi við heimamenn og hafa þessar veislur verið afar fjölsóttar. Við þökkum kærlega fyrir einstaklega góðar móttökur á þeim stöðum sem við heimsóttum í maí og hlökkum til að fara aftur á flakk. 

Norræna þekkingarlestin

Háskólalestin hefur forystu um Norrænu þekkingarlestina sem ásamt Biophilia-menntaverkefninu var stór hluti af framlagi Íslands á formennskuári þess í Norrænu ráðherranefndinni árið 2014. Þau norrænu byggðarlög sem taka þátt í verkefninu munu á þessu ári útfæra Þekkingarlestina í sínu heimalandi að fyrirmynd Háskólalestarinnar ásamt því að þróa Biophilia-verkefnið frekar, en það á rætur sínar í samstarfi Háskóla Íslands við tónlistarkonuna Björk Guðmundsdóttur og Reykjavíkurborg. Auk Íslands taka þátt í verkefninu Noregur, Svíþjóð, Finnland og Færeyjar.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is