Háskólalestin í Stykkishólmi

Háskólalestin verður í Stykkishólmi dagana 20. og 21. maí, með fræði og fjör í farteskinu. Á föstudaginn munu nemendur Grunnskólans í Stykkishólmi sækja námskeið í eðlisfræði, efnafræði, japönsku, jarðfræði, leik með hljóði, stjörnufræði, vindmyllusmíði og vísindaheimspeki.

Á laugardaginn verður haldin vísindaveisla á Hótel Stykkishólmi og þangað eru alllir velkomnir, ungir sem aldnir. Í vísindaveislunni verður margt að sjá og prófa. Gestum gefst til dæmis tækifæri á að reyna við þrautir og gátur í boði Vísindavefs HÍ, rita nöfn sín á japönsku, skoða ýmsar eðlisfræðitilraunir og spreyta sig á vindmyllusmíði. Þá verður einnig boðið upp á ferðalag um himingeiminn í stjörnutjaldinu og Sprengju-Kata sýnir stórskemmtilegar efnafræðitilraunir. Heimamenn munu einnig taka þátt í vísindaveislunni, en þar verða meðal annars fulltrúar frá Snæfellsnesi þjóðgarði og Vör sjávarrannsóknarsetri.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is