Háskólalestin brunar á Blönduós

Háskólalestin leggur af stað í sína aðra ferð á árinu á morgun, en Háskólalestin verður á Blönduósi dagana 13. og 14. maí. Á föstudeginum verða kennd námskeið úr Háskóla unga fólksins í Blönduskóla, en þangað koma líka nemendur frá Skagaströnd og Húnavöllum. Nemendur hafa úr ýmsum skemmtilegum námskeiðum að velja: efnafræði, japönsku, eðlisfræði, stjörnufræði, jarðfræði, vindmyllusmíði, leik með hljóð og vísindaheimspeki. 

Á laugardaginn verður svo haldin vísindaveisla í félagsheimilinu á Blönduósi og þangað eru allir velkomnir og aðgangur ókeypis. Þar geta ungir sem aldnir gleymt sér við að prófa alls konar skemmtilegar tilraunir, þrautir og gátur; ferðast um heimingeiminn í stjörnutjaldinu sívinsæla, spreytt sig á að skrifa á japönsku, séð ótrúlegar efnafræðibrellur og fjölmargt fleira. Þar að auki fáum við góða gesti frá svæðinu til að taka þátt í vísindaveislunni með okkur sem munu kynna það mikla starf sem fram fer á svæðinu á lifandi og skemmtilegan hátt.

Eins og fyrr segir eru allir velkomnir í vísindaveislu Háskólalestarinnar á laugardaginn klukkan 12 - 16 og aðgangur er ókeypis.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is