Háskólalest Háskóla Íslands hefur ferðast um landið við miklar vinsældir frá árinu 2011 og er hún fyrirmynd Norrænu þekkingarlestarinnar. Í lestinni er lögð áhersla á lifandi vísindamiðlun til ungs fólks og fjölbreytta dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Viðtökur hafa verið með eindæmum góðar og hafa landsmenn á öllum aldri fjölmennt á viðburði Háskólalestarinnar.
Í Háskólalestinni eru valin námskeið úr Háskóla unga fólksins fyrir grunnskólanemendur og jafnvel leikskólabörn og framhaldsskólanemendur. Að auki er slegið upp litríkum vísindaveislum fyrir alla heimamenn með stjörnuveri, Biophiliu, sýnitilraunum, mælingum og pælingum, að ógleymdum efnafræðibrellum Sprengju-Kötu.
Frá árinu 2011 hefur Háskólalestin farið í 30 ferðir og heimsótt 27 staði á landinu. Í maí árið 2016 heimsótti lestin Búðardal, Blönduós, Stykkishólm og Voga, og var áhöfninni vel tekið á öllum þessum stöðum.