Háskólalestin brunar á Þórshöfn

Háskólalestin heldur áfram að bruna um landið og næsti viðkomustaður er Þórshöfn.

Föstudaginn 22. maí verða kennd námskeið úr Háskóla unga fólksins í Grunnskólanum á Þórshöfn. Þangað koma líka nemendur úr elstu bekkjum Grunnskólans á Bakkafirði. Kennd verða sex námskeið: eðlisfræði, stjörnufræði, vindmyllur og vindorka, efnafræði, japanska og jarðfræði.

Á laugardeginum 23. maí verður vísindaveisla í Félagsheimilinu Þórsveri. Þar fá kennarar úr Háskóla unga fólksins til sín liðsauka og verður eitt og annað skemmtilegt á boðstólnum; svo sem japanskt origami, sprengingar í boði efnafræðinganna, sýnitilraunir og fagurfræði eðlisfræðinnar og margt fleira. Stjörnutjaldið sívinsæla verður einnig á sínum stað þar sem boðið verður upp á ferðalög um alheiminn.

Þar að auki mun Jón Gunnar Þorsteinsson, ristjóri Vísindavefs HÍ leggja ýmsar þrautir og gátur fyrir heimamenn. Fjölmargir Vopnafjarðarbúar leystu þrautir Vísindavefsins um liðna helgi og það verður gaman að sjá hvernig íbúar Þórshafnar og nærsveita standa sig.

Allir eru hjartanlega velkomnir í vísindaveisluna og aðgangur er ókeypis.

Háskólalestin hefur í ár forystu um Norrænu þekkingarlestina svokölluðu sem ásamt Biophilia-menntaverkefninu var stór hluti af framlagi Íslands á formennskuári þess í Norrænu ráðherranefndinni árið 2014. Þau norrænu byggðarlög sem taka þátt í verkefninu munu á þessu ári útfæra Þekkingarlestina í sínu heimalandi að fyrirmynd Háskólalestarinnar ásamt því að þróa Biophilia-verkefnið frekar, en það á rætur sínar í samstarfi Háskóla Íslands við tónlistarkonuna Björk Guðmundsdóttur og Reykjavíkurborg. Öll norrænu ríkin taka virkan þátt í verkefninu auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands.

Þetta er fimmta árið í röð sem Háskólalestin brunar um landið með fjör og fræði fyrir alla aldurshópa en hún hefur fengið fádæma góðar viðtökur á þeim liðlega 20 stöðum á landsbyggðinni sem sóttir hafa verið heim fá árinu 2011. 

 

 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is