Skagaströnd

Næsti viðkomustaður Háskólalestarinnar var Skagaströnd. Skagstrendingar og nærsveitarmenn létu kuldakastið sem þá stóð yfir ekki hafa áhrif á sig og tóku vel á móti Háskólalsetinni þegar hún staldraði þar við í tvo daga. 

Rúmlega 100 nemendur sóttu námskeið Háskóla unga fólksins í japönsku, nýsköpun, stjörnufræði, táknmálsfræði, latínu, eðslifræði og fornleifafræði. Óhætt er að segja að áhuginn hafi skinið úr andlitum nemenda.

Nemendur í 9. bekk Höfðaskóla á Sagaströnd bjuggu til myndband þar sem þau fræddu áhugasama um eldgos, heimspeki og augu. Myndbandið er hægt að sjá hér.

Síðari daginn bauðst gestum og gangandi á öllum aldri að taka þátt í Vísindaveislu Háskólalestarinnar. Í félagsheimlinu Fellsborg sýndu félagar úr hinu víðfræga Sprengjugengi listir sínar, eldorgelið og teiknirólan voru á sínum stað og hægt var að kynna sér japanska menningu og fornleifafræði svo eitthvað sé nefnt. Enn fremur gátu gestir skoðað stjörnurnar í stjörnutjaldinu sem komið hafði verið upp í íþróttahúsi Höfðaskóla.

Háskólalestin á Skagaströnd

 

Þá var boðið upp á stutt fræðsluerindi í kaffihúsinu Bjarmanesi. Sævar Helgi Bragason fræddi gesti um leyndardóma stjörnufræðinnar, Soffía Auður Birgisdóttir flutti erindið „Endurvinnsla bókmenntaarfsins,“ og Albína Huld Pálsdóttir ræddi um fornleifafræði, svo dæmi séu tekin.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is