Háskólalestin heimsækir Egilsstaði um helgina

Egilsstaðaskóli verður vettvangur síðustu heimsóknar Háskólalestar Háskóla Íslands í maímánuði þetta árið. Nemendur þriggja skóla á Austurlandi sækja þar námskeið um ólíkar hliðar vísindanna föstudaginn 25. maí og slegið verður upp fjörugri vísindaveislu í skólanum fyrir alla Austfirðinga laugardaginn 26. maí kl. 12-16. 
 
Háskólalestin hefur þegar heimsótt Vestmannaeyjar, Borgarnes og Grenivík í maí og alls hátt í 40 sveitarfélög frá því að hún var sett á laggirnar á aldarafmælisári Háskólans 2011. 
Áhersla áhafnarinnar á lestinni hefur frá upphafi verið á að kynna vísindi á lifandi, skemmtilegan og fjölbreyttan hátt og glæða þannig vísindaáhuga víða um land, ekki síst hjá ungu fólki.
 
Föstudaginn 25. maí verður fjölmennt í Egilsstaðaskóla því þar munu um 150 nemendur úr 7.-10. bekk skólans, Seyðisfjarðarfjarðarskóla og Brúarásskóla á Héraði sækja námskeið úr Háskóla unga fólksins. Valið stendur á milli fornleifafræði, hljóðsmiðju, japönsku, eðlisfræði, vísindaheimspeki, lífríkis og plasts, stjörnufræði, tómstunda- og félagsmálafræði, efnafræði og vindmyllusmíði og velur hver nemandi sér þrjú námskeið fyrir daginn.  
 
Laugardaginn 26. maí verður svo efnt til hressilegrar vísindaveislu fyrir alla aldurshópa frá kl. 12-16 í Egilsstaðaskóla. Þar verður hægt að gera óvæntar uppgötvanir og frábærar tilraunir og stunda alls kyns mælingar og pælingar með áhöfn lestarinnar.
 
Einnig er hægt að: 
- Kynnast undraheimum japanskrar menningar og máls 
- Leita að stjörnum og sólum með Sævari Helga Bragasyni 
- Búa til fjöll og læki í landslagskassanum 
- Skoða dularfullar efnablöndur Sprengju-Kötu
- Kynnast ljósum og hljóðum í gegnum skemmtilega leiki
- Búa til vængi og vindmyllur
- Spreyta sig á þrautum Vísindavefsins
- Læra að lóða
- Hlusta á syngjandi Cladni-stálplötu og skál og ótalmargt fleira.
 
Allir eru velkomnir og aðgangur alveg ókeypis
 
Hægt er að fylgjast með Háskólalestinni á Facebook-síðu hennar.
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is