Háskólalestin á Grenivík um helgina

Háskólalest Háskóla Íslands staðnæmist á Grenvík dagana 18. og 19. maí með fræði og fjör fyrir Grenvíkinga og nærsveitamenn. Þar verður bæði boðið upp á fjölbreytt og skemmtileg námskeið í grunnskóla bæjarins og vísindaveislu fyrir unga sem aldna í íþróttahúsinu á staðnum. 
 
Grenivík er þriðji áfangastaður Háskólalestarinnar í maímánuði en áhöfn lestarinnar hefur þegar fengið fantagóðar móttökur í Vestmannaeyjum og Borgarnesi. Háskólalestin er nú á sínu áttunda starfsári og hefur heimsótt hátt í 40 sveitarfélög víða um land frá því að henni var fyrst ýtt af stað. Áhersla áhafnarinnar á lestinni hefur frá upphafi verið á að kynna vísindi á lifandi, skemmtilegan og fjölbreyttan hátt og glæða þannig vísindaáhuga víða um land, ekki síst hjá ungu fólki.
 
Heimsókn Háskólalestarinnar á Grenivík hefst með því að kennarar lestarinnar taka að sér kennslu í Grenivíkurskóla föstudaginn 18. maí en þangað koma líka nemendur úr Stórutjarnaskóla í Þingeyjarsveit og Valsárskóla á Svalbarðsstrandarhreppi. Alls er um að ræða um 75 nemendur í 5.-10. bekk sem býðst að sækja námskeið í japönsku, eðlisfræði, stjörnufræði, tómstunda- og félagsmálafræði, efnafræði og vindmyllusmíði. Hver nemandi velur sér þrjú námskeið fyrir daginn.  
 
Laugardaginn 19. maí slær áhöfn Háskólalestarinnar svo upp veglegri vísindaveislu í íþróttahúsinu í Grenvík frá kl. 12-16 og þangað eru fólk á öllum aldri velkomið. Þar verður hægt að kynna sér undur vísindanna í gegnum leiki, tæki, tól og tilraunir og aðgangur er alveg ókeypis.
 
Háskólalestin heldur svo áfram för sinni í næstu viku en síðasti áfangastaður hennar þetta árið verður Egilsstaðir þar sem lestin stoppar 25. og 26. maí.
 
Hægt er að fylgjast með Háskólalestinni á Facebook-síðu hennar.
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is