Háskólalestin brunar í Borgarnes

Borgarnes er annar áfangastaður Háskólalestar Háskóla Íslands en þar stöðvast lestin dagana 11. og 12. maí með bæði fjölbreytt vísindanámskeið fyrir grunnskólanemendur og veglega vísindaveislu fyrir alla fjölskylduna. 
 
Háskólalestin er nú á sínu áttunda starfsári en hún var sett á laggirnar á aldarafmælisári Háskóla Íslands árið 2011. Áhersla starfsmanna lestarinnar er á kynna vísindi á lifandi, skemmtilegan og fjölbreyttan hátt fyrir ungu fólki og hefur lestin heimsótt á fjórða tug sveitarfélaga um allt land frá því að hún rúllaði fyrst af stað.
 
Lestin lagði af stað í sína árlegu maíreisu í liðinni viku en þá tók áhöfn hennar hús á nemendum í Grunnskóla Vestmannaeyja og bauð 8.-10. bekkingum upp á á fróðleg og skemmtileg námskeið. Alls verða áfangastaðirnir í maí fjórir og er Borgarnes sá næsti sem fyrr segir.
 
Föstudaginn 11. maí munu kennarar Háskólalestarinnar taka að sér kennslu í
Grunnskólanum í Borgarnesi og bjóða um hundrað nemendum í 7.-10. bekk upp á námskeið í jafnfjölbreyttum greinum og fornleifafræði, forritun, tómstunda- og félagsmálafræði, efnafræði, leik að hljóðum, japönsku máli og menningu, stjörnufræði og eðlisfræði. Hver nemandi hefur valið sér þrjú námskeið fyrir daginn.  
 
Daginn eftir, laugardaginn 12. maí, slær áhöfn Háskólalestarinnar svo upp heljarinnar vísindaveislu í mennta- og menningarmiðstöðinni Hjálmakletti þar sem hægt verður að kynna sér undur vísindanna í gegnum leiki, tæki, tól og tilraunir. Vísindaveislan stendur frá kl. 12-16 og er öllum opin, ungum sem öldnum. 
 
Næstu áfangastaðir Háskólalestarinnar:
18. og 19. maí - Grenivík
25. og 26. maí – Egilsstaðir
 
Hægt er að fylgjast með Háskólalestinni á Facebook-síðu hennar.
 
 
 
 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is