Háskólalestin komin á leiðarenda

Háskólalestin er nú komin á leiðarenda í bili eftir fjórar afar skemmtilegar ferðir til Hafnar, Vopnafjarðar, Þórshafnar og Húsavíkur. Þetta var fyrsta árið sem lestin heimsótti staði sem hún hefur stoppað á áður; Höfn og Húsavík. Þá ferðaðist Háskólalestin einnig lengra en hún hefur áður gert, þegar hún fór til Þórshafnar og var ferðalagið hiklaust þess virði enda Langanesbyggð dásamlegur staður heim að sækja.

Á ferðum Háskólalestarinnar hafa verið kennd ýmis námskeið Háskóla unga fólksins, svo sem í jarðfræði, forritun, eðlisfræði, efnafræði, Biophiliu, stjörnufræði, japönsku, vísindaheimspeki, vindmyllum og vindorku, tölfræði, hvölum og næringarfræði. Það hefur verið gaman að kenna áhugasömum nemendum og voru kennararnir sérstaklega ánægðir með hversu óhrætt unga fólkið var við að spyrja allra þeirra spurninga sem því datt í hug. Það er nefnilega þannig að unga fólkið kemur oft með bestu spurningarnar og upp frá þeim skapast skemmtilegar umræður í námskeiðunum. 

Háskólalestin sló upp vísindaveislum á hverjum stað fyrir sig, þar sem opið var fyrir almenning og aðgangur ókeypis. Það var frábært að upplifa hversu margir litu við í vísindaveislunum og stoppuðu sumir við tímunum saman hjá okkur, enda nóg að gera fyrir áhugasama.

Við þökkum kærlega fyrir frábærar móttökur og gestrisni á öllum þeim stöðum sem við heimsóttum og hlökkum til að koma þangað aftur, vonandi áður en of langt um líður.

Norræna þekkingarlestin

Háskólalestin hefur forystu um Norrænu þekkingarlestina sem ásamt Biophilia-menntaverkefninu var stór hluti af framlagi Íslands á formennskuári þess í Norrænu ráðherranefndinni árið 2014. Þau norrænu byggðarlög sem taka þátt í verkefninu munu á þessu ári útfæra Þekkingarlestina í sínu heimalandi að fyrirmynd Háskólalestarinnar ásamt því að þróa Biophilia-verkefnið frekar, en það á rætur sínar í samstarfi Háskóla Íslands við tónlistarkonuna Björk Guðmundsdóttur og Reykjavíkurborg. Öll norrænu ríkin taka virkan þátt í verkefninu auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is