Háskólalestin á Húsavík

Um liðna helgi ferðaðist Háskólalestin óvenju langt, en þá brunaði hún á Þórshöfn. Nú er förinni heitið á Húsavík og verður það síðasta ferð lestarinnar í bili.

Föstudaginn 29. maí verða kennd námskeið úr Háskóla unga fólksins í Borgarhólsskóla á Húsavík. Kennd verða ellefu námskeið: eðlisfræði, stjörnufræði, stærðfræði, vísindaheimspeki, hvalir, efnafræði, forritun, næringarfræði, japanska, Biophilia, og vindmyllur og vindorka.

Laugardaginn 30. maí verður verður svo haldin vísindaveisla í Borgarhólsskóla. Þar fá kennarar úr Háskóla unga fólksins til sín liðsauka og verður eitt og annað skemmtilegt á boðstólnum. Stjörnutjaldið sívinsæla verður á sínum stað og geta forvitnir gestir fræðst um undur himingeimsins. Þá verður næringarfræðingur á staðnum með skemmtilega leiki, róla mun teikna myndir fyrir gesti og gangandi, efnafræðingurinn verður með sprengingar og litríkar lausnir, japanskan verður á sínum stað með japanska búninga og svo mætti lengi áfram telja.

Þar að auki mun ristjóri Vísindavefs HÍ, sem kennir vísindaheimspeki í Háskóla unga fólksins, leggja ýmsar þrautir og gátur fyrir heimamenn. Fjölmargir hafa nú þegar leyst þrautirnar í fyrri vísindaveislum og nú verður gaman að sjá hvernig Húsvíkingar standa sig.

Allir eru hjartanlega velkomnir í vísindaveisluna og aðgangur er ókeypis.

 

Háskólalestin hefur í ár forystu um Norrænu þekkingarlestina svokölluðu sem ásamt Biophilia-menntaverkefninu var stór hluti af framlagi Íslands á formennskuári þess í Norrænu ráðherranefndinni árið 2014. Þau norrænu byggðarlög sem taka þátt í verkefninu munu á þessu ári útfæra Þekkingarlestina í sínu heimalandi að fyrirmynd Háskólalestarinnar ásamt því að þróa Biophilia-verkefnið frekar, en það á rætur sínar í samstarfi Háskóla Íslands við tónlistarkonuna Björk Guðmundsdóttur og Reykjavíkurborg. Öll norrænu ríkin taka virkan þátt í verkefninu auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands.

Þetta er fimmta árið í röð sem Háskólalestin brunar um landið með fjör og fræði fyrir alla aldurshópa en hún hefur fengið fádæma góðar viðtökur á þeim liðlega 20 stöðum á landsbyggðinni sem sóttir hafa verið heim fá árinu 2011. 

Þetta er síðasta ferð Háskólalestarinnar í bili.

Hægt er að fylgjast með Háskólalestinni á vef hennar og Facebook

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is