Háskólalestin og Biophilia í norrænt samstarf

Nýsköpunar- menntunarverkefnið Biophilia, sem Háskóli Íslands hefur unnið að undanfarin ár, ásamt tónlistarkonunni Björk Guðmundsdóttur og Reykjavíkurborg, er stór hluti af formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2014. Það er margþætt og nú teygir það sprota sína um hin norrænu löndin og víða um Ísland í ferð með Háskólalestinni sem nú er orðin að samnorrænni þekkingarlest.

Biophilia-verkefnið á rætur sínar í samnefndri hljómplötu Bjarkar. Hún var fyrsta app-hljómplata veraldar og einstakt sköpunarverk þar sem tvinnast saman vísindi, tónfræði og tækni. Í upphafi samstarfsins var um að ræða tónvísindasmiðjur sem þróaðar voru í tengslum við tónleikaferðir Bjarkar og borgardvalir. Þar setti starfsfólk Háskóla Íslands, tónlista- og náttúrufræðikennarar úr grunnskólum Reykjavíkur og samstarfsmenn Bjarkar saman nýstárlega dagskrá fyrir 10–12 ára  nemendur þar sem sköpun var notuð sem rannsóknar- og námsaðferð. Í framhaldi af smiðjunum var  unnið að menntunarverkefni sem þróað hefur verið í grunnskólum Reykjavíkur síðastliðin tvö ár og  hefur fengist mjög jákvæð  reynsla af því.

Þriðji áfangi verkefnisins er framlag Biophilia að  formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Að því munu koma norrænir fræði- og vísindamenn, kennarar og nemendur af öllum skólastigum. Markmiðið með verkefninu er að þróa kennsluaðferðir í takt við nýja tíma og tækni, jafnframt því að vekja áhuga ungs fólks á náttúruvísindum og skapandi listum.

Valin byggðarlög á Norðurlöndum taka þátt í þróun Biophilia menntunarverkefnisins og þau taka einnig þátt í að móta í sínu landi svokallaða þekkingarlest, að fyrirmynd Háskólalestar Háskóla Íslands. Af því tilefni slást fulltrúar norrænna mennta-og vísindastofnana með í för Háskólalestarinnar og fylgja lestinni á Snæfellsnes, þar sem numið verður staðar í Grundarfirði og Ólafsvík.

Háskólalestin hefur ferðast um Ísland frá 2011 við miklar vinsældir og hefur lestin fengið einstakar móttökur um land allt. Þar eru í boði valin námskeið úr Háskóla unga fólksins fyrir grunnskólanemendur en auk þess mun lestin nú teygja sig yfir á leikskóla- og framhaldsskólastigin með Biophilia tónvísindasmiðjur. Að auki er slegið upp litríkum vísindaveislum fyrir alla aldurshópa með stjörnuveri, sýnitilraunum, alls kyns skemmtilegum tækjum, tólum og óvæntum uppgötvunum. að ógleymdum sýningum með Sprengjugenginu landsfræga. 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is