Vel heppnuð heimsókn á Klaustur

Íbúar á Kirkjubæjarklaustri og nærsveitamenn fjölmenntu í vísindaveislu Háskólalestarinnar sem haldin var á laugardag. Fólk á öllum aldri lagði leið sína í veisluna og kynnti sér undur vísindanna og fylgdist með mögnuðum sýningum Sprengjugengisins landsfræga.

Háskólalestin kom til Kirkjubæjarklausturs föstudaginn 4. maí og var þá nemendum í Víkurskóla og Kirkjubæjarskóla boðið upp á fjölbreytt námskeið í Háskóla unga fólksins undir handleiðslu reyndra kennara. Laugardaginn 5. maí var svo slegið upp vísindaveislu fyrir alla fjölskylduna í félagsheimilinu Kirkjuhvoli og Íþróttahúsi grunnskólans. Þar gátu gestir skoðið himingeiminn í stjörnutjaldinu sívinsæla, hlýtt og horft á eldorgel, kynnt sér ýmis tæki og tól ásamt japanskri menningu, jarðvísindum og ýmiss konar tilraunum. Þá var boðið upp á þrautir og leiki utanhúss. Sprengjugengið, sem er hópur efnafræðinema sem framkvæmir kröftugar og litríkar sýnitilraunir, var einnig með tvær sýningar á staðnum og voru þær vel sóttar.

Frá Kirkjubæjarklaustri heldur Háskólalestin til Siglufjarðar þar sem hún verður með námskeið í Háskóla unga fólksins fyrir grunnskólanema og vísindaveislu fyrir alla aldurshópa 11. og 12. maí.
Þar á eftir verða Grindavík (16. og 19. maí) og Ísafjörður (25. og 26. maí) heimsótt með sams konar dagskrá.

Um Háskólalestina
Háskólalestin ferðaðist um landið í fyrra, á aldarafmæli Háskóla Íslands, og var tekið með kostum og kynjum á þeim fjölmörgu stöðum vítt og breitt um landið sem sóttir voru heim. Leikurinn er endurtekinn í ár og verður lestin á ferðinni í maí með fjör og fræði fyrir alla á fjórum stöðum.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is