Sprengjugengi og Stjörnuver í Grindavík

Háskólalest Háskóla Íslands staðnæmist í Grindavík á morgun, laugardaginn 19. maí, þar sem efnt verður til Vísindaveislu fyrir alla fjölskylduna.

Háskólalestin heimsótti Grunnskóla Grindavíkur á miðvikudaginn var og þar bauðst nemendum í eldri bekkjum grunnskólans að sækja námskeið í Háskóla unga fólksins. Stóð valið á milli eðlisfræði, jarðfræði, líffræði, nýsköpunar, stjörnufræði, þjóðfræði og fornleifafræði.

Á morgun verður hins vegar Vísindaveisla fyrir alla aldurshópa í Kvikunni, auðlinda- og menningarmiðstöð Grindavíkur, kl. 11-15. Þar verður Sprengjugengið, hópur efnafræðinema úr Háskóla Íslands sem vakið hefur mikla athygli fyrir kröftugar og litríkar tilraunir, með tvær sýningar, kl. 11:15 og 14:15. Þá verður Stjörnuverið stórkostlega opið kl. 11:40 til 15:00, en þar geta gestir farið í ferðalag um óravíddir himingeimsins.  Sýningar verða á 20 mínútna fresti.

Sem fyrr er aðgangur ókeypis og allir boðnir hjartanlega velkomnir.

Frekari upplýsingar um Háskólalestina eru á vef hennar.

Um Háskólalestina
Á hundrað ára afmæli Háskóli Íslands 2011 var tímamótunum fagnað víða um land með svokallaðri Háskólalest sem ferðaðist um landið við miklar vinsældir. Lögð var áherslu á lifandi vísindamiðlun til ungs fólks og fjölbreytta dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Viðtökur voru með eindæmum góðar og fjölmenntu landsmenn á öllum aldri á viðburði Háskólalestarinnar.

Vorið 2012 lagði lestin af stað á ný með fræði og fjör fyrir landsmenn. Lestin hefur þegar heimsótt Kirkjubæjarklaustur og Fjallabyggð og er Grindavík þriðji áfangastaðurinn. Lestin verður svo á Ísafirði dagana 25. og 26. maí en Ísafjörður er jafnframt síðasti áfangastaður lestarinnar þetta árið.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is