Háskólalestin komin á endastöð í ár

Háskólalest Háskóla Íslands heimsótti síðasta áfangastað sinn þetta árið, Ísafjörð, um síðustu helgi þar sem bæði ungir og gamlir kynntu sér undur vísindanna.

Lestin kom til Ísafjarðar föstudaginn 25. maí og þann dag sóttu nemendur í efstu deild Grunnskólans á Ísfirði spennandi námskeið í efnafræði, japönsku, lífrræði, stjörnufræði, þjóðfræði, mannfræði og fornleifafræði í Háskóla unga fólksins.

Laugardaginn 26. maí slógu aðstandendur lestarinnar upp vísindaveislu í Edinborgarhúsinu fyrir alla fjölskylduna. Þar sýndi Sprengjugengið landsfræga listir sýnar ásamt því sem Stjörnuverið, eldorgel, japönsk menning, stjörnufræði, þrautir og leikir stóðu gestum til boða. Viðtökur voru einkar góðar og sem fyrr sýndi unga kynslóðin vísindunum mikinn áhuga.

Háskólalestin hefur nú lokið yfirferð sinni um landið þetta árið. Að baki eru heimsóknir á Kirkjubæjarklaustur, í Fjallabyggð, Grindavík og á Ísafjörð og alls staðar mætti Háskólalestarfólki mikil vinsemd og áhugi. Vonir standa til að lestin fari aðra ferð um landið á næsta ári og þá heimsækir hún nýja staði með fjör og fræði.

Myndir frá heimsókn Háskólalestarinnar til Ísafjarðar má finna á myndagalleríi háskólavefsins.

Enn fremur er hægt að fræðast frekar um Háskólalestina á vef hennar og á Facebook.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is