Háskólalestin heimsótti Húsavík

Húsvíkingar voru gestgjafar Háskólalestarinnar um liðna helgi í síðustu ferð lestarinnar fyrir sumarhlé. Sprengjugengið landsfræga vakti mikla athygli og líkt og á fyrri viðkomustöðum lestarinnar sýndi unga kynslóðin vísindunum mikinn áhuga.

Dagskrá Háskólalestarinnar hófst á föstudeginum 27. maí þegar nemendur 6. – 9. bekkjar Borgarhólsskóla á Húsavík sóttu valin námskeið úr hinum vinsæla Háskóla unga fólksins. Þar kynntust þau meðal annars stjörnufræði, japönsku, sjúkraþjálfun, eðlisfræði og jarðvísindum. Eins og myndirnar hér til hliðar bera með sér skein áhugi ungmennanna úr augum þeirra.

Laugardaginn 28. maí var efnt til vísindaveislu fyrir alla bæjarbúa og nærsveitarmenn á Hvalasafninu og í Salnum í Borgarhólsskóla. Húsfyllir var á sýningu félaga úr Sprengjugenginu landsfræga og gestir sýndu stjörnutjaldinu, eldorgelinu og ýmsum öðrum tækjum í vísindaveislunni mikinn áhuga.

Þá voru flutt stutt fræðsluerindi í fyrirlestrasal Hvalasafnsins. Þar fræddust gestir m.a. um jarðskjálfta í Kelduhverfi og tengsl þeirra við eldstöðvar Þeistareykja og Kröflu, tungumál hvala og tengsl ferðamennsku og náttúru. 

Háskólalestin gerir nú hlé á ferð sinn um landið yfir hásumarið. Hún leggur aftur af stað um miðjan ágúst þegar Bolungarvík verður heimsótt í Ástarviku 12.-14. ágúst. Í framhaldinu verða þrír staðir til viðbótar heimsóttir eins og sjá má á heimasíðu Háskólalestarinnar.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is