Háskólalestin heimsækir Fjallabyggð

Háskólalest Háskóla Íslands heimsækir um helgina Fjallabyggð sem er annar áfangastaður lestarinnar á ferð hennar um landið í maí. Í lestinni ætti fólk á öllum aldri að geta fundið eitthvað við sitt hæfi úr undraheimi vísindanna.

Háskólalestin ferðaðist um landið í fyrra, á aldarafmæli Háskóla Íslands, og fékk feikigóðar viðtökur á þeim fjölmörgu stöðum vítt og breitt um landið sem sóttir voru heim. Leikurinn er endurtekinn í ár og verður lestin á ferðinni í maí með fjör og fræði fyrir alla. Lestin var á Kirkjubæjarklaustri um síðustu helgi en verður í Fjallabyggð dagana 11. og 12. maí.

Vísindaveisla fyrir alla fjölskylduna

Nemendur á efsta stigi í Grunnskóla Fjallabyggðar sækja námskeið í Háskóla unga fólksins í dag, föstudaginn 11. maí, og geta þar valið á milli efnafræði, jarðfræði, nýsköpunar, japönsku og tómstunda- og félagsmálafræði.

Á morgun, laugardaginn 12. maí, verður svo efnt til vísindaveislu fyrir alla fjölskylduna í Tjarnarborg, samkomuhúsi Ólafsfjarðar, kl.12-16. Þar sýnir hið landsfræga Sprengjugengi kröftugar og litríkar efnafræðitilraunir og gestir geta kynnt sér undraspegla, stjörnufræði, syngjandi skál, spennandi sýnitilraunir, eldorgel og ótal margt fleira. Einnig verða sýningar í Stjörnuveri á hálftíma fresti.

Dagskrá Háskólalestarinnar er öllum opin, aðgangur er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir!

Nánar um Háskólalestina
Háskólalestin verður svo á eftirtöldum stöðum síðar í maí:

Grindavík 16. og 19. maí
Ísafjörður 25. og 26. maí.

Hægt er að fylgjast með Háskólalestinni á vef hennar og á Facebook.

Nánar um Háskóla unga fólksins á vef skólans

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is