Háskólalestin brunar aftur af stað

Háskólalest Háskóla Íslands leggur aftur af stað í langferð um landið og heimsækir fjóra áfangastaði í ár. Þar verður bæði boðið upp á námskeið úr Háskóla unga fólksins fyrir nemendur í eldri bekkjum grunnskóla og blásið til vísindaveislu fyrir alla fjölskylduna.

Á hundrað ára afmæli Háskóli Íslands 2011 var tímamótunum fagnað víða um land með svokallaðri Háskólalest sem ferðaðist um landið við miklar vinsældir. Lögð var áhersla á lifandi vísindamiðlun til ungs fólks og fjölbreytta dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Viðtökur voru með eindæmum góðar og fjölmenntu landsmenn á öllum aldri á viðburði Háskólalestarinnar á níu stöðum á landinu. 

Vorið 2012 leggur lestin af stað á ný með fræði og fjör fyrir landsmenn. Í maí verða heimsóttir fjórir áfangastaðir: Kirkjubæjarklaustur, Siglufjörður, Grindavík og Ísafjörður.

Í Háskólalestinni verða valin námskeið úr Háskóla unga fólksins fyrir grunnskólanemendur en að auki verður slegið upp litríkum vísindaveislum fyrir alla heimamenn með  stjörnuveri, sýnitilraunum, eldorgeli, mælingum og pælingum að ógleymdu Sprengjugenginu landsfræga.

Áhöfn Háskólalestarinnar þakkar landsmönnum ógleymanlegar viðtökur á liðnu ári og býður alla hjartanlega velkomna í Háskólalestina 2012.

Áætlun Háskólalestarinnar í maí 2012:

Kirkjubæjarklaustur      4. og   5. maí
Siglufjörður                11. og 12. maí
Grindavík                   16. og 19. maí
Ísafjörður                   25. og 26. maí

Hægt er að fylgjast með Háskólalestinni á vef hennar og á Facebook.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is