Háskólalestin á Stykkishólmi

Háskólalestin hélt á sinn fyrsta áfangastað í síðustu viku en þá var ferðinni heitið í Stykkishólm. Föstudaginn 29. apríl tóku nemendur í 5.-10. bekk í Grunnskóla Stykkishólms þátt í Háskóla unga fólksins en þar kenndi ýmissa grasa. Þar kynntust nemendur skólans japönsku, stjörnufræði, eðlisfræði, nýsköpun, íþrótta- og heilsufræði og jarðfræði. Almenn ánægja var með námskeiðin, bæði hjá nemendum og kennurum.

Laugardaginn 30. apríl var svo slegið til vísindaveislu í samstarfi við W23 en það er heiti á samstarfi fimm náttúrutengdra stofnana á Snæfellsnesi: Háskólaseturs Snæfellsness, Náttúrustofu Vesturlands, Útibú Hafrannsóknastofnunarinnar í Ólafsvík, Varar Sjávarrannsóknarseturs við Breiðafjörð og Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls. Vísindaveislan hafði upp á ýmislegt að bjóða og gátu gestir meðal annars horft á sýningu sprengjugengisins, látið eldorgel loga, kíkt við í stjörnuverinu og skoðað ýmis undur eðlisfræðinnar.

Enn fremur fengu fjölmargir nafn sitt ritað á japönsku á meðan aðrir skoðuðu það sem jarðfræðin hafði upp á að bjóða. Ýmis dýr voru til sýnis allt frá kröbbum og fiskum til fugla og spendýra, auk þess sem náttúrurannsóknir á Snæfellsnesi voru kynntar. Sérstök fræðsluerindi voru haldin en þar voru fyrirlestrar um hvort að minkurinn væri grimmari en önnur dýr sem Rannveig Magnúsdóttir hélt, bernskubrek æðarblika sem Jón Einar Jónsson fræddi gesti um, ferðalög um himingeiminn eftir Sævar Helga Bragason og botndýr við Íslandsstrendur sem Jörundur Svavarsson hélt.

Þar að auki var Vísindavefurinn með sinn sess. Vísindavefurinn bauð upp á spurningakeppni og þrautir sem gestir gátu leyst sér til skemmtunar. Veggspjöld úr spurningabók Vísindavefsins og Forlagsins um vísindi handa börnum sem kemur út í haust og ber nafnið: Af hverju gjósa fjöll? voru til sýnis og vísindadagatalið var á sínum stað. Dregið var úr réttum lausnum í spurningakeppninni en það var hún Björg Brimrún Sigurðardóttir sem var dreginn út og hlaut að launum eintak af vísindadagatalinu. Auk þess tókst Aroni Alexander Þorvarðarsyni að finna út hver ætti fiskinn í gátu Einsteins og hlaut hann einnig dagatal að launum.

Að lokum var hægt að líta á minnstu myndlistarsýningu landsins en hún rúmast fyrir á títuprjónshaus. Nemendur í teikningu við Myndlistaskólann í Reykjavík fengu það verkefni að teikna myndir fyrir minnstu myndlistarsýningu sem haldin hefur verið á Íslandi. Myndirnar voru smækkaðar og prentaðar í gullfilmu á yfirborð kísilflögu í örtæknikjarna Raunvísindastofnunar Háskólans. Rafeindasmásjármyndir voru svo teknar af smækkuðum verkum nemendanna og paraðar við aðrar rafeindasmásjármyndir sem fundust í safni Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Háskóla Íslands. Á student.is má sjá myndband um sýninguna.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is