Grindvíkingar tóku vel á móti Háskólalestinni

Vel var tekið á móti Háskólalest Háskóla Íslands þegar hún heimsótti Grindavík um helgina með Sprengjugengið og Stjörnuverið í fararbroddi.

Háskólalestin heimsótti Grunnskóla Grindavíkur síðastliðinn miðvikudaginn og þar bauðst nemendum í eldri bekkjum grunnskólans að sækja námskeið í Háskóla unga fólksins. Stóð valið á milli eðlisfræði, jarðfræði, líffræði, nýsköpunar, stjörnufræði, þjóðfræði og fornleifafræði.

Laugardaginn 19. maí var hins vegar efnt til Vísindaveislu fyrir alla aldurshópa í Kvikunni, auðlinda- og menningarmiðstöð Grindavíkur. Þangað mætti fjöldi fólks til þess að fylgjast með brellum Sprengjugengisins, hóps efnafræðinema sem vakið hefur mikla athygli fyrir kröftugar og litríkar tilraunir, og til að skoða óravíddir himingeimsins í Stjörnutjaldinu.

Myndir frá heimsókn Háskólestarinnar til Grindavíkur 16. og 19. maí má sjá í myndagalleríi háskólans.

Grindavík var þriðji áfangastaður Háskólalestarinnar af fjórum þetta árið, en Háskólalestin fór í fyrstu ferð sína um landið í fyrra, á aldarafmæli skólans, við góðar undirtektir. Síðasti áfangastaður lestarinnar er í ár Ísafjörður sem verður heimsóttur dagana 25. og 26. maí næstkomandi. Fyrri daginn sækja nemendur í 7.-10. bekk Grunnskóla Ísafjarðar námskeið í Háskóla unga fólksins og daginn eftir verður efnt til veglegrar Vísindaveislu í Edinborgarhúsinu fyrir alla fjölskylduna milli kl. 12 og 16.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is