Fjör í Háskólalestinni á Kirkjubæjarklaustri

Háskólalest Háskóla Íslands heimsótti fyrsta áfangastaðinn af fjórum í ár, Kirkjubæjarklaustur 4. og 5. maí. Nemendur í Kirkjubæjarskóla og Víkurskóla sóttu námskeið í Háskóla unga fólksins föstudaginn 4. maí og laugardaginn 5. maí var slegið upp Vísindaveislu í félagsheimilinu Kirkjuhvoli og íþróttamiðstöð staðarins.

Óhætt er að segja að nemendur skólanna tveggja hafi tekið kennurum í Háskóla unga fólksins opnum örmum á Kirkjubæjarklaustri. Hver nemandi valdi sér þrjú ólík námskeið fyrir daginn og stóð valið á milli eðlisfræði, jarðfræði, nýsköpunar, japönsku og tómstunda- og félagsmálafræði.  Áhuginn skein úr andlitum nemenda sem fræddust um ýmis undur vísindanna og brugðu á leik.

Á Vísindaveislunni var margt í boði: stjörnutjald, sýnitilraunir, eldorgel, tæki og tól, japönsk menning, jarðvísindi, þrautir og leikir. Auk þess var Sprengjugengið  landsfræga með tvær sýningar í Kirkjuhvoli, kl. 12:30 og 14:30.

Dagskrá Háskólalestarinnar er öllum opin, aðgangur er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir!

Um Háskólalestina
Háskólalestin ferðaðist um landið í fyrra, á aldarafmæli Háskóla Íslands, og var tekið með kostum og kynjum á þeim fjölmörgu stöðum vítt og breitt um landið sem sóttir voru heim. Leikurinn er endurtekinn í ár og verður lestin á ferðinni í maí með fjör og fræði fyrir alla á fjórum stöðum.

Frá Kirkjubæjarklaustri heldur Háskólalestin á eftirtalda staði:

Siglufjörður 11. og 12. maí
Grindavík 16. og 19. maí
Ísafjörður 25. og 26. maí.

Hægt er að fylgjast með Háskólalestinni á vef hennar og á Facebook.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is