Fjölmenn vísindaveisla í Fjallabyggð

Fullt var út úr dyrum í vísindaveislu Háskólalestarinnar í Fjallabyggð á laugardaginn var, 12. maí. Ungir sem aldnir kynntu sér fjölbreytta dagskrá lestarinnar þar sem vísindin voru sem fyrr í forgrunni.

Fjallabyggð var annar áfangastaður Háskólalestarinnar af fjórum sem heimsóttir verða þetta árið. Heimsókn lestarinnar hófst föstudaginn 11. maí þegar nemendur á efsta stigi Grunnskóla Fjallabyggðar sóttu námskeið í Háskóla unga fólksins. Daginn eftir var svo efnt til veglegar vísindaveislu sem opin var íbúum Fjallabyggðar og nærsveitungum.

Dagskráin fór fram í Tjarnarborg, samkomuhúsi Ólafsfjarðar, kl.12-16. Þar gátu gestir m.a. kynnt sér undraspegla, syngjandi skál, spennandi sýnitilraunir og eldorgel ásamt því að skyggnast upp í himinhvolfið, bæði með sérstökum sólarsjónauka utan húss og í reglulegum sýningum Stjörnuversins innan húss. Hið landsfræga Sprengjugengi vakti sömuleiðis mikla athygli með sínum kröftugu og litríku efnafræðitilraunum, ekki síst meðal yngstu kynslóðarinnar.

Myndir frá heimsókninni má nálgast í myndagalleríi á vef háskólans.

Lestin heldur áfram ferð sinni um landið og kemur næst við í Grindavík dagana 16. og 19. maí. Fyrri daginn sækja nemendur í Grunnskóla Grindavíkur námskeið í Háskóla unga fólksins, en þar stendur valið á milli eðlisfræði, jarðfræði, líffræði, nýsköpunar, stjörnufræði, þjóðfræði og fornleifafræði. Laugardaginn 19. maí verður svo slegið upp vísindaveislu fyrir alla aldurshópa í Kvikunni, auðlinda- og menningarmiðstöð Grindavíkur, kl. 11-15.

Sem fyrr er aðgangur ókeypis og allir boðnir hjartanlega velkomnir.

Nánari upplýsingar er að finna á vef Háskólalestarinnar og Facebook.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is