Sólrík vísindaveisla á Sauðárkróki

Sólin skein í Skagafirði þegar Háskólalestin heimsótti Sauðárkrók með sín fjör og fræði um hvítasunnuhelgina. Lestin kom á Krókinn þann 16. maí og bauð upp á dagskrá dagana 17. og 18. maí.

Föstudaginn 17. maí sóttu nemendur úr 8. og 9. bekk Grunnskóla Sauðárkróks, Varmahlíðar og Grunnskólanum austan Vatna á Hofsósi valin námskeið í Háskóla unga fólksins. Meðal þess sem þau glímdu við var stjörnufræði, jarðfræði, næringarfræði, japanska, blaða- og fréttamenska og efnafræði undir leiðsögn vaskra kennara Háskóla unga fólksins en þar eru á ferðinni bæði nemendur og kennarar við Háskóla Íslands. Óhætt er að segja að þeim hafi tekist að glæða áhuga ungu kynslóðarinnar á hinum ýmsu viðfangsefnum vísindanna og héldu nemendur glaðir í bragði út í sólina eftir vel heppnaðan dag.

Daginn eftir, laugardaginn 18. maí, var Sauðkrækingum og nærsveitarmönnum boðið í vísindaveislu í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Þar bar fyrir augu ýmsa hluti sem sýna vísindin í lifandi og skemmtilegu ljósi, þar á meðal ýmiss konar spegla og tilraunir, leiki og þrautir, steintegundir og stjörnur og japanska menningu og tungu. Enn fremur voru grunnskólanemar á ferðinni og mynduðu herlegheitin og ræddu við gesti vísindaveislunnar. Sprengjugengið lét ekki sitt eftir liggja og töfraði fram lifríkar sýningar og þá nýttu ófáir tækifærið og rýndu í himintunglin í stjörnutjaldinu.

Sauðárkrókur var annar áfangastaður Háskólalestarinnar þetta vorið en lestin lýkur ferð sinni um landið um næstu helgi þegar Fjarðabyggð verður sótt heim. Þar verður líkt og annars staðar boðið upp á valin námskeið í Háskóla unga fólksins fyrir nemendur í eldri bekkjum grunnskóla og blásið til vísindaveislu fyrir alla fjölskylduna í samstarfi við heimamenn.

Myndir frá Háskólalestinni á Sauðárkróki má sjá í ljósmyndagalleríi Háskóla Íslands.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is