Háskólalestinni vel tekið í Vesturbyggð

Háskólalestin fór á fulla ferð um síðustu helgi og nam staðar í Vesturbyggð. Þar var henni tekið með kostum kynjum.

Háskólalestin byggist upp á fjölþættum vísindaviðburðum þar sem margir leggjast á eitt við að uppfræða og skemmta samtímis. Mikilvægi rannsókna og nýsköpunar er dregið fram í dagsljósið en þjónar í lestinni eru m.a. vísindamenn háskólans, kennarar og framhaldsnemendur.  Farþegar eru svo íbúar fjölmargra byggðalaga sem lestin sækir heim.

Dagskrá Háskólalestarinn stendur yfir í tvo daga á hverjum stað. Föstudaginn 10. maí sóttu nemendur eldri deilda Grunnskóla Vesturbyggðar og Grunnskóla Tálknafjarðar námskeið í Háskóla unga fólksins í efnafræði, jarðfræði, stjörnufræði, japönsku, hugmyndasögu og Vísindavefnum.

Á laugardag var vísindaveisla í samkomuhúsinu á Patreksfirði og varð húsfyllir í tvígang á meðan Sprengjugengi Háskóla Íslands fór hamförum. Þess á milli var bekkurinn þétt setinn ef þannig má að orði komast enda margt í boði. Veisluna setti Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri en hún þekkir Háskólalestina af raun. Ásthildur stóð að undirbúningi fyrstu lestarferðanna sem voru sumarið 2011. Ásthildur starfaði þá sem verkefnisstjóri aldarafmælis Háskóla Íslands. Guðrún Bachmann lestarstjóri ýtti lestinni af stað á Patró með bæjarstjóranum.

Einnig var boðið upp á kennslu við að gera japanskt origami, afar fjölbreytt steinasafn var til sýnis, hægt var að glíma við ýmsar þrautir og leika í vísindatækjum og fræðast um himingeiminn svo fátt eitt sé nefnt.

Myndir frá ferðinni má sjá í myndagalleríi háskólavefsins.

Um Háskólalestina

Háskólalestinni var hleypt af stokkunum á aldarafmæli Háskóla Íslands árið 2011. Þá var tímamótunum fagnað með viðamikilli vísindadagskrá á níu stöðum á landinu og voru viðtökurnar með eindæmum góðar. Lestin heimsótti fjóra staði í fyrra og lagði sem fyrr áherslu á lifandi vísindamiðlun til ungs fólks og litríka dagskrá fyrir alla fjölskylduna.

Háskólalestin er  annars samansett úr sjálfstæðum einingum sem mynda eina órofa heild. Helstu einingarnar eru:

Háskóli unga fólksins sem hefur verið haldinn árlega frá árinu 2004. Í Háskóla unga fólksins kynnast hundruð nemenda grunnskólanna um stund vísindum, rannsóknum, námi og starfi við Háskóla Íslands.

Vísindavefurinn, sem hefur verið starfræktur frá árinu 2000 og er einn fjölsóttasti vefur landsins. Hann svarar spurningum almennings um nánast allt sem fólk fýsir að vita.  

Sprengjugengi háskólans er hópur efnafræðinema úr Háskóla Íslands sem vakið hefur mikla athygli fyrir kröftugar og litríkar tilraunir á sviði efnafræðinnar.

Stjörnutjaldið sem er afar vinsælt og gerir öllum kleift að ferðast um sólkerfið. Stjörnutjaldið er ógleymanleg upplifun fyrir alla fjölskylduna.

Vísindatæki og -tól Ara Ólafssonar, prófessors í eðlisfræði, sem sýna vísindin í litríku og lifandi ljósi.

Alls kemur Háskólalestin við á þremur stöðum í maímánuði á. Sauðárkrókur er annar áfangastaður Háskólalestarinnar vorið 2013. Lestin hefur viðkomu á Króknum dagana 17. og 18. maí og býður m.a. upp á leiftrandi vísindaveislu fyrir alla fjölskylduna.

Hægt er að fylgjast með Háskólalestinni á vef hennar og á Facebook.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is