Háskólalestinni mætti ást og kærleikur

Ást og kærleikur svifu yfir vötnum í Bolungarvík á laugardaginn var þegar Háskólalestinn efndi til vísindaveislu í bænum á svokallaðri Ástarviku heimamanna.

Í vísindaveislunni gátu heimamenn og aðrir Vestfirðingar kynnt sér ýmis tæki og tól Háskólalestarinnar og fór öll dagskrá fram í Félagsheimili bæjarins og Tónlistarskólanum. Meðal þess sem fjölmargir gestir kynntu sér var stjörnutjald, japönsk menning, furðuspeglar, fornleifar, tæki og tók sjúkraþjálfara og ástarsögur og rómantík af ýmsu tagi líkt og við var að búast á Ástarviku. Sprengjugengið víðfræga vakti einnig mikla athygli fyrir ljósagang og kröftugar sýnitilraunir.

Þá sóttu fjölmargir heimamenn stutt fræðsluerindi sem fræðimenn Háskóla Íslands fluttu í fyrirlestrarsal Félagsheimilisins en þau áttu það sammerkt að fjalla á einn eða annan hátt um ástina. Lára Magnúsardóttir sagnfræðingur fjallaði um ástarmál Vestfirðinga á 15. öld, Sóley Bender, prófessor í hjúkrunarfræði, ræddi um kynferðisþroskann og ástina, Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í nútímabókmenntum, um ástarsögur fyrr og nú og Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands í Bolungarvík, um makaleit ýmissa dýrategunda til sjós og lands. Ragnar Edvardsson fornleifafræðingur flutti erindi um ástir Rómverja til forna og Sævar Helgi Bragason stjörnufræðingur spáði í stjörnurnar og geimferðir.

Aðstandendur Rannsóknarseturs Háskóla Íslands í Bolungarvík kynntu einnig einkar áhugaverð rannsóknarverkefni sem unnið er að í setrinu en þau snúa meðal annars að samspili manns og þorsks á Vestfjörðum.

Hér til hliðar má sjá myndir frá vísindaveislu Háskólalestarinnar í Bolungarvík.

Bolungarvík var fyrsti viðkomustaður Háskólalestarinnar eftir sumarfrí en í vor heimsótti lestin fimm staði á landsbyggðinni. Lestin á enn eftir að koma við á þremur stöðum áður en sumarið er úti. Um næstu helgi, nánar til tekið 20. ágúst, verður vísindaveisla á boðstólum í Ormsteiti á Egilsstöðum.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is