Háskólalestin fékk verðlaun RANNÍS

Vísindamiðlunarverðlaun Rannís komu í ár í hlut Háskóla Íslands. Háskólalestin svokallaða hlaut verðlaunin á Vísindavöku Rannís sem haldin var gær í Háskólabíói.   Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti þá Jóni Atla Benediktssyni, aðstoðarrektor vísinda og kennslu við Háskóla Íslands, viðurkenningu fyrir þetta verkefni en fulltrúar lestarinnar tóku við viðurkenningunni með honum.

Á aldarafmæli Háskóli Íslands árið 2011 var tímamótunum fagnað víða um land með Háskólalestinni sem ferðaðist um landið við miklar vinsældir. Lögð var áherslu á lifandi vísindamiðlun til fólks á öllum aldri með fjölbreyttri dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Viðtökur voru með eindæmum góðar og fjölmenntu landsmenn á viðburði Háskólalestarinnar hvar sem hún nam staðar.

Háskólalestin byggðist upp á fjölþættum vísindaviðburðum þar sem margir lögðust á eitt við að uppfræða og skemmta samtímis. Í lestinni voru m.a. vísindamenn háskólans, kennarar og framhaldsnemendur og var lestin byggð á sjálfstæðum einingum sem mynduðu eina órofa heild. Helstu einingarnar voru:

  • Háskóli unga fólksins: sem hefur verið haldinn árlega frá árinu 2004 eftir að kennslu og prófum lýkur í Háskóla Íslands. Í Háskóla unga fólksins koma ár hvert saman hundruð nemenda grunnskólanna og kynnast um stund vísindum, rannsóknum, námi og starfi við Háskóla Íslands.
  • Vísindavefurinn: hefur verið starfræktur frá árinu 2000 og er í dag einn fjölsóttasti vefur landsins. Hann svarar spurningum almennings um allt sem viðkemur vísindum, rannsóknum og fjölmörgum öðrum þáttum sem fólk fýsir að vita.  
  • Sprengjugengi háskólans: sem er hópur efnafræðinema úr Háskóla Íslands sem vakið hefur mikla athygli fyrir kröftugar og litríkar tilraunir á sviði efnafræðinnar.
  • Stjörnutjaldið: Í Stjörnutjaldinu vinsæla mátti fræðast um stjörnurnar, reikistjörnur, tunglið og önnur fyrirbæri alheimsins. Í einu vetfangi má ferðast á milli reikistjarna, sjá skýjabelti Júpíters, hringa Satúrnusar eða skoða Jörðina frá fjarlægum sjónarhornum. Stjörnutjaldið er ógleymanleg upplifun fyrir alla fjölskylduna. 
  • Vísindatæki og -tól: sem sýna vísindin í litríku og lifandi ljósi.

Háskólalestin var farin í samstarfi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á landsbyggðinni en þátttakendur voru einnig grunnskólar á landsbyggðinni, sveitarfélög og fleiri. 

Í lestinni var boðið upp á vísindaleiki, létta en markvissa kennslu, fjör og gríðarlega fjölbreytt fræði sem oft voru sniðin að sérkennum þess staðar sem var heimsóttur.

Í lestinni var áhersla lögð á að auka skilning allra sem tóku þátt í viðburðunum á vísindum, en í þeim hópi var almenningur, börn, unglingar og fullorðnir. Áhersla var lögð á að draga fram mikilvægi rannsókna, vísinda almennt og nýsköpunar fyrir íslenskt samfélag. Alls staðar tóku vísindamenn beinan þátt í viðburðum lestarinnar, í sumum tilvikum með fyrirlestrum.

Fyrstu áfangastaðir Háskólalestarinnar voru Stykkishólmur og Hvolsvöllur en á ferðaáætlun lestarinnar á aldarafmælinu. Lestin heimsótti einnig Höfn í Hornafirði, Skagaströnd, Húsavík, Bolungarvík, Egilsstaði, Sandgerði og Seltjarnarnes.  

Heimsókn Háskólalestarinnar á hvern áfangastað stóð yfirleitt í tvo daga. Þann fyrri sóttu grunnskólanemar margvísleg námskeið í anda Háskóla unga fólksins sem getið hefur sér gott orð fyrir vísindamiðlun til barna. Í kennslunni var áhersla m.a. lögð á nýsköpun og á mikilvægi rannsókna fyrir íslenskt samfélag. Í brennipunkti voru afar fjölbreytt fræði sem tengdust öllum fræðasviðum Háskóla Íslands. Á meðal þess sem nemendur og landsmenn fengu að kynnast í lestinni voru japanska, stjörnufræði, eðlisfræði, nýsköpun, íþrótta- og heilsufræði, jarðfræði.

Síðari dagurinn var síðan helgaður afar fjölbreyttri vísindaskemmtun sem ætluð var gestum á öllum aldri.

Háskólalestin hélt áfram ferð sinni um landið í ár og heimsótti fjóra staði. Hægt er að kynna sér starfsemi lestarinnar á vef Háskólalestarinnar.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is