Fjölsótt vísindaveisla á Egilsstöðum

Fullt var út úr dyrum í vísindaveislu Háskólalestarinnar á Egilsstöðum um síðustu helgi en hún var haldin í tengslum við hina árlegu Ormsteiti.

Egilsstaðir voru sjöundi viðkomustaður Háskólalestarinnar en lestin er liður í hátíðahöldum vegna aldarafmælis Háskóla Íslands í ár. Markmiðið með Háskólalestinni er að kynna undur vísindanna fyrir almenningi víða um land og hafa byggðarlög þar sem finna má rannsóknasetur á vegum Háskóla Íslands verið heimsótt í vor og sumar.

Fjölmenni var á Ormsteiti um helgina og lögðu margir leið sína í Grunnskóla Egilsstaða á laugardaginn þar sem Háskólalestin var með sína dagskrá. Hið víðfræga Sprengjugengi heillaði fullan sal af gestum upp úr skónum með litríkum og kröftugum sýnitilraunum. Þá var mikil aðsókn í Stjörnutjaldið þar sem gestir ferðast um himingeiminn og fræðast um hann. Vegna góðrar aðsóknar var brugðið á það ráð að bæta við sýningum í tjaldinu.

Háskólalestin kemur við á síðustu tveimur áfangastöðum sínum nú um helgina, Sandgerði og Seltjarnarnesi. Föstudaginn 26. ágúst verður nemendum í elstu bekkjum Grunnskólans í Sandgerði boðið upp á valin námskeið úr Háskóla unga fólksins, þar á meðal japönsku stjörnufræði, fornleifafræði og táknamál. Laugardaginn 27. ágúst slær Háskólalestin svo upp vísindaveislu, m.a. með Sprengjugenginu, eldorgeli og ýmsum sýnitilraunum, á hátíðarsvæði Sandgerðisdaga. Sama dag verður Háskólalestin einnig með fræði, fjör og vísindi á Seltjarnarnesi á Gróttudeginum svokallaða.

Hér til hliðar má sjá myndir frá vísindaveislunni á Egilsstöðum.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is