Aldrei fleiri nemendur í Háskóla unga fólksins

Háskóli unga fólksins verður starfræktur í níunda sinn í Háskóla Íslands dagana 11.–15. júní. Skráningu lauk 1. júní og hafa þátttakendur aldrei verið fleiri, eða á fjórða hundrað.

Háskóli unga fólksins er ætlaður ungmennum á aldrinum 12–16 ára og hefur frá upphafi verið árviss sumarboði við Háskóla Íslands þar sem unga kynslóðin sækir námskeið í fjölbreyttum greinum háskólans. Í hópi nemenda í ár eru m.a. verðlaunahafar í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna 2011 en meðal verðlauna í keppninni var boðskort í Háskóla unga fólksins.

Nemendur hafa sjálfir búið til sínar stundatöflur. Meðal námskeiða sem þeim stendur til boða eru stjörnufræði, heimspeki, fornleifafræði, lögfræði, frumkvöðlafræði, kínverska, kynjafræði og lyfjafræði. Kennsla í Háskóla unga fólksins er í höndum fræðimanna og framhaldsnema við Háskóla Íslands.

Auk námskeiða í einstökum greinum hafa nemendur valið sér eina námsgrein á svokölluðum þemadegi 13. júní. Þá verja nemendur heilum degi í verkefni í greinum eins og fjölmiðlafræði, jarðvísindum, kvikmyndum, tölvunarfræði, viðskiptafræði og jafnrétti, lýðræði og stjórnmálum ásamt því að heimsækja stofnanir sem tengjast greinunum. Þannig munu nemendur í þemanu jafnrétti, lýðræði og stjórnmál heimsækja Jón Gnarr borgarstjóra í Ráðhús Reykjavíkur og fræðast um störf hans auk þess sem þingkonur taka á móti hópnum í Alþingishúsinu.

Botninn verður sleginn í Háskóla unga fólksins á veglegri lokahátíð föstudaginn 15. júní. Efnt verður til veislu á Háskólatorgi og nemendur, starfsfólk og kennarar fagna saman góðri viku.

Háskóli unga fólksins hefur verið starfræktur í júnímánuði allt frá árinu 2004 og óhætt er að segja að það lifni yfir háskólasvæðinu þegar fróðleiksfúsir og fjörugir krakkar leggja það undir sig. Skólinn hefur einnig ferðast um landið sem hluti af Háskólalestinni. Í fyrra heimsótti Háskólalestin átta áfangastaði víða um Ísland og fjórir staðir voru heimsóttir í maí síðastliðnum.

Upplýsingar um Háskóla unga fólksins er að finna á vef hans, www.ung.hi.is.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is