Fréttir

Á þriðja hundrað leik- og grunnskólabörnum í Fossvogsskóla tóku þátt í vísindaveislu Norrænu þekkingarlestarinnar sem fram fór í Fossvogi miðvikudaginn 5. október. Í boði voru vísindakrásir frá norrænum löndum, þar á meðal tilraunir með hljóð og ljós, vindmyllusmíði og forritun.

 
Vísindaveislan í Fossvogsskóla markaði lok samstarfsverkefnis um Norrænu þekkingarlestina sem ásamt Biophilia-menntaverkefninu var hluti af framlagi Íslands á formennskuári þess í Norrænu ráðherranefndinni árið 2014. Þekkingarlestin á sér fyrirmynd í Háskólalest Háskóla Íslands sem ferðast hefur um landið undanfarin fimm ár við fádæma vinsældir og heimsótt hátt í 30 bæi með vísindi, fjör og fræði. 
 
Sams konar lestir, þar sem áhersla er á að kynna vísindi fyrir ungu fólki á lifandi og gagnvirkan máta, hafa ferðast um byggðarlög í Noregi, Svíþjóð, Færeyjum og Finnlandi undanfarin misseri og hefur verið vel tekið. Áhafnir allra norrænu Þekkingarlestanna voru staddar á Íslandi í vikunni vegna lokahátíðar verkefnisins og af því tilefni var reykvískum skólabörnum boðið til vísindaveislu.
 
Auk nemenda í Fossvogsskóla sóttu nemendur frá Dalsskóla, leikskólanum Kvistaborg og Réttarholtsskóla vísindaveisluna. Bornar voru fram fjölbreyttar vísindakrásir í vinnustofum og smiðjum þar sem vindmyllusmíð, forritun, leikur að ljósþráðum, Biophilia-tónvísindasmiðjur og orkumælingar komu við sögu ásamt tilraunum með hljóð, liti og ljós, eldflaugagerð og efnafræðitilraunum.
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is