Búðardalur

Fyrsta ferð Háskólalestarinnar árið 2016 var í Búðardal. Grunnskólinn í Búðardal heitir Auðarskóli. Þar voru haldin valin námskeið úr Háskóla unga fólksins fyrir nemendur eldri bekkja Auðarskóla og einnig komu nemendur úr Reykhólaskóla. Boðið var upp á margskonar námskeið; japönsku, efnafræði, eðlisfræði, stjörnufræði, vindmyllusmíði og vísindaheimspeki, auk námskeiðs um hljóð sem ber heitið Leikur að hljóði.

Á laugardeginum var haldin vísindaveilsa í félagsheimilinu í Búðardal; Dalabúð. Íbúar í Búðardal og nágrenni tóku sér hvíld frá sauðburði og öðrum skyldustörfum til að líta í veisluna sem var gríðarlega vel sótt. Í veislunni gafst gestunum tækifæri á að skoða stjörnuhimininn í stjörnutjaldinu, sjá ýmsar efnafræðibrellur Sprengju-Kötu, prófa syngjandi skál og margt fleira. Þá lagði ritstjóri Vísindavefs HÍ ýmsar þrautir og gátur fyrir heimamenn. Systkinin Sölvi og Soffía Meldal stóðu voru fyrst til að leysa allar fjórar þrautirnar og stálu þannig senunni. Á Vísindavefnum má lesa nánar um hvernig gestum gekk að leysa þrautirnar. Háskólalestin leggur mikið upp úr því að vera í nánu samstarfi við heimafólk á svæðunum sem hún heimsækir og því tók Þörungaverksmiðjan frá Reykhólum þátt í vísindaveislunni.

Mynd: Vísindavefur HÍ

Mynd: Vísindavefur HÍ

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is