Blönduós

Önnur ferð Háskólalestarinnar í maí var norður á Blönduós þar sem fjölmargir spenntir krakkar tóku á móti áhöfn lestarinnar. Nemendur eldri bekkja Blönduskóla, Höfðaskóla og Húnavallaskóla voru mættir snemma í morgunsárið á föstudeginum í Blönduskóla til að sækja námskeið úr Háskóla unga fólksins. Boðið var upp á námskeiði í efnafræði, japönsku, eðlisfræði, stjörnufræði, vindmyllusmíði, vísindaheimspeki, blaða- og fréttamennsku, verfræðilegri hugsun og leik að hljóðum.

Á laugardeginum var haldin vísindaveisla í félagsheimilinu á Blönduósi. Fjölmargt var í boði fyrir gesti og gangandi. Gestir spreyttu sig til dæmisá þrautum og gátum í boði Vísindavefsins eins og lesa má um hér, skrifuðu nöfnin sín á japönsku, ferðuðust um himingeiminn í stjörntjaldinu og prófuðu ýmsar eðlisfræðitilraunir. Líftæknifyrirtækið Biopol, sem starfrækt er á Skagaströnd, tók þátt í veislunni. Fulltrúar Biopol voru með ýmsar skepnur með í för en þeir stunda rannsóknir á lífríki hafsins og nýtingu sjávarfangs. Gestir fengu til að mynda að hadleika krossfiska, krabba, ígulker, marhnúta og hrognkelsi.

Þekkingarsetrið á Blönduósi tók einnig þátt og voru meðal annars fulltrúar Textíllistamiðstöðvarinnar mættir. Það var fjölmargt að sjá og gera fyrir gesti og gangandi. Frábærlega vel heppnuð ferð í alla staði.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is