2011

Árið 2011 hélt Háskólalestin í sína fyrstu ferð. Fyrsta ferð Háskólalestarinnar var farin 29. apríl og sú síðasta 29. september þetta árið. Dagskrá Háskólalestarinnar stóð yfirleitt í tvo daga, föstudag og laugardag. Í flestum ferðunum var föstudagur helgaður Háskóla unga fólksins. Þar baust nemendurm í efri bekkjum grunnskóla að velja milli námskeiða í allt að sjö háskólafögum. Á laugardeginum var síðan slegið upp Vísindaveislu og öllu samfélaginu boðið. 

Áfangastaðir Háskólalestarinnar voru tíu talsins: Stykkishólmur; Hvolsvöllur; Höfn í Hornafirði; Skagaströnd; Húsavík; Bolungarvík; Egilsstaðir; Seltjarnarnes; Sandgerði; og Laugarvatn.

Náið samstarf var við skólastjórnendur við undirbúning og framkvæmd heimsókna Háskólalestarinnar. Í fyrsta lagi gáfu allir skólar nemendum leyfi frá daglegu skólastarfi til þess að taka heilshugar þátt í námskeiðum Háskóla unga fólksins. Í öðru lagi fylgdi því talsvert umstang að koma þessari starfsemi fyrir í skólanum, aðstoða börnin við að velja námskeið og fleira.

Móttökur heimamanna, velvilji og gestrisni voru einstök, hvert sem komið var. 

Háskóli unga fólksins
Háskóli unga fólksins var í Háskólalestinni í nokkuð smækkaðri mynd, enda einungis um einn kennsludag að ræða. Í flestum skólum var kennt á efsta stigi en á fámennum stöðum var yngri bekkjum gefinn kostur á að taka þátt og víða komu einnig nemendur úr nærliggjandi skólum.

Langflestir kennararnir í Háskólalestinni voru þrautreyndir úr Háskóla unga fólksins sem hafði þróað gagnvirka og lifandi kennsluhætti. Þarna var því kennarahópur á ferð sem hafði vissa sérhæfingu í að miðla flóknum viðfangsefnum á skiljanlegan máta til ungs fólks þar sem upplifunin og gleðin í „því óvænta“ eru í hávegum höfð.

Vísindaveislur
Vísindaveislur Háskólalestarinnar voru haldnar í félagsheimili staðarins, samkomuhúsi, skólahúsnæði, eða á vettvangi Ransóknasetranna, allt eftir atvikum. Víða voru veislurnar hluti af stærri hátíðarhöldum, því lögð var áhersla á að taka sem virkastan þátt í staðbundnum viðburðum, svo sem Vísindavöku W23 í Stykkishólmi, Ástarviku í Bolungarvík, Bæjarhátíð í Sandgerði og Ormsteiti á Egilsstöðum.

Rannsóknarsetur HÍ tóku virkan þátt í öllum Vísindaveislum og kynntu starfsemi sína með margskonar hætti. Einnig var leitast við að bjóða samstarfsaðilum rannsóknasetranna og „vísindatengdum“ stofnunum eða fyrirtækjum í byggðarlaginu að taka þátt í dagskránni.

Í samstarfsnetinu sem myndaðist um Háskólalestina voru meðal annars:
Náttúrustofa Vesturlands, Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull, Hafró á Ólafsvík, Vör sjávarrannsóknarsetur, Landgræðsla ríkisins að Gunnarsholti, Hekluskógar, Háskólafélag Suðurlands, Ríki Vatnajökuls, Menningarmiðstöð Hornafjarðar, Framhladsskóli Austurlands, Nes Listamiðstöð, BioPhol ehf, Spákonuarfur, Menningarráð Norðurlands vestra, Hvalasafnið á Húsavík, Þekkingarnet Þingeyinga, Norðursigling, Fræðasetrið Sandgerði, Botndýrastöðin Sandgerði, Náttúrustofa Reykjaness, Ferða- og menningarráð Sandgerðisbæjar.

Vísindaveislur Háskólalestarinnar á landsbyggðinni voru afar vel sóttar og vöktu umtalsverða athygli. Fyrir flestum heimamönnum var viðburður af þessu tagi algjör nýjung og mátti merkja af viðbrögðum gesta að margt kom þar á óvart. Sjá mátti jafn yngri sem eldri kynslóðir dvelja tímunum saman á staðnum, fullir áhuga, og virtust allir finna eitthvað við sitt hæfi. 

Örfyrirlestrar
Í öllum Vísindaveislum voru í boði örfyrirlestrar og var efni þeirra sérstaklega sniðið að hverjum áfangastað í nánum samstarfi við Rannsóknasetrin Leitast var við að velja efni sem gæti höfðað sterkt til veruleika og umhverfis hvers byggðarlags.

Örfyrirlestrar voru yfirleitt fluttir á „rólegri“ hluta vettvangsins, samhliða annarri dagskrá, en lögð var áhersla á óformlegt umhverfi fyrir bæði gesti og fyrirlesara. Boðið var upp á kaffiveitingar, setið til borðs fremur en í hefðbundnum sætaröðum fyrirlestrarsala o.sfrv. Á Skagaströnd gafst til dæmis kostur á að halda fyrirlestrana í kaffihúsinu og í Stykkishólmi var setið í hlýlegum matsal Hótel Stykkishólms.

Vísindavefur
Vísindavefur HÍ spilaði einnig stórt hlutverk í Háskólalestinni fyrsta árið. Vísindavefurinn var einn af fjórum meginþáttum Háskólalestarinnar og þjónaði á vissan hátt hlutverki „brautarpalls.“ Fyrst og fremst tengdist Vísindavefurinn grunnskólum allra áfangastaða með gagnvirkum og nýstárlegum hætti. Grunnskólanemar sendu inn bæði spurningar og svör og unnu efni inn á vefinn sem tengdist þeirra samfélagi og umhverfi. Nemendum stóð m.a. til boða að búa til sín eigin vefnámskeið um vísindi og að taka upp myndbönd og setja inn hlaðvarp um skemmtileg og fjörug vísindi. Ritstjóri Vísindavefsins hélt utan um þetta verkefni, í samstarfi við kennara á staðnum.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is